Næst síðasti sunnudagur kirkjuársins - Dómur yfir heiminum - Endurkoman

Dagsetning

16. Nóvember. 2025

Litur

Grænn.

Vers dagsins

„Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists“ (2Kor 5.10a)

Kollekta


Miskunnsami, eilífi Guð: Vek í okkur nýjan vilja og þrá að lifa þér og veit okkur til þess mátt kærleika þíns, að við sakir náðar þinnar fáum borið ávöxt í öllu góðu og öðlast þitt eilífa líf. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin og frelsara okkar, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía: Sef 3.14-17


Hrópaðu af gleði, Síonardóttir! Fagnaðu hástöfum, Ísrael! Þú skalt kætast og gleðjast af öllu hjarta, dóttirin Jerúsalem. Drottinn hefur ógilt refsidóminn yfir þér, hann hefur hrakið fjendur þína á brott. Konungur Ísraels, Drottinn, er með þér, engar ófarir þarftu framar að óttast. Á þeim degi verður sagt við Jerúsalem: „Óttastu ekki, Síon, láttu ekki hugfallast. Drottinn, Guð þinn, er hjá þér, hin frelsandi hetja. Hann mun fagna og gleðjast yfir þér, hann mun hrópa af fögnuði þín vegna eins og á hátíðisdegi og hugga með kærleika sínum

Pistill: Heb 3.12-14


Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði. Uppörvið heldur hvert annað hvern dag á meðan enn heitir „í dag“, til þess að enginn forherðist af táli syndarinnar. Því að við erum orðin hluttakar Krists svo framarlega sem við treystum honum staðfastlega allt til enda eins og í upphafi.

Guðspjall: Matt 25.1-13


Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Sálmur: 203. Fyrir þá alla er fá nú hvíld hjá þér


Kirkjuár - Allra heilagra messa

hymn notes
1 Fyrir þá alla' er fá nú hvíld hjá þér en forðum trúarstyrkir börðust hér þér vegsemd, Jesú, þökk og heiður ber. Hallelúja, hallelúja. 2 Þú varst þeim sjálfur varnarskjólið traust, á voðans stund þeir heyrðu þína raust og geisli frá þér gegnum sortann braust. Hallelúja, hallelúja. 3 Ó, mættum vér gegn heimi heyja stríð sem helgir vottar þínir fyrr og síð og öðlast krónu lífs er lýkur hríð. Hallelúja, hallelúja. 4 Ó, helga sveit. Þér háu dýrðarmenn, þér hljótið hvíld, vér berjast þurfum enn, í Guði eitt vér erum þó í senn. Hallelúja, hallelúja. 5 Þótt hugdirfð bregðist, hjartans kólni glóð, ó, heyr! Í fjarska óma sigurljóð sem hjörtun styrkja, hressa dapran móð. Hallelúja, hallelúja. 6 Í vestri kvöldsins bjarmi boðar frið og brátt fær hvíld hið þreytta, trúa lið og Paradísar heilagt opnast hlið. Hallelúja, hallelúja. 7 En sjá – þó aftur dýrri dagur skín er Drottinn kallar trúu börnin sín til lífs í sælu sem ei framar dvín. Hallelúja, hallelúja. 8 Af sæ og landi, suðri´ og norðri frá í sigurgöngu mæst er himnum á og sungið föður, syni´ og anda þá: Hallelúja, hallelúja.


T William W. How 1864 – Valdemar V. Snævarr, 1954 – Sb. 1972
For all the Saints
L Ralph Vaughan Williams 1906 – Vb. 1976
SINE NOMINE / For all the Saints

Eldra númer 204
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Opb. 14.13