3. sunnudagur í aðventu

Fyrirrennarinn. Greiðið Drottni veg

Dagsetning

15. Desember. 2024

Litur

Fjólublár, rósbleikur eða rauðbleikur.

Söngur

Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.

Vers dagsins

„Greiðið Drottni veg“ „Sjá, Guð yðar kemur“ (Jes 40.3 og 10)

Kollekta


Við biðjum þig, Drottinn: Hneig eyra þitt að bænum okkar og lýs upp myrkur hugans með náð vitjunar þinnar, þú sem lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía: Jes 40.1-8


Huggið, huggið lýð minn, segir Guð yðar. Hughreystið Jerúsalem og boðið henni að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar. Heyr, kallað er: „Greiðið Drottni veg um eyðimörkina, ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni, sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólar verði að jafnsléttu og hamrar að dalagrundum. Þá mun dýrð Drottins birtast og allt hold sjá það samtímis því að Drottinn hefur boðað það.“ Einhver segir: „Kalla þú,“ og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“ „Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna þegar Drottinn andar á þau. Sannlega eru mennirnir gras. Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“

Pistill: 1Kor 4.1-5


Þannig líti menn á okkur sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. Nú er þess krafist af ráðsmönnum að sérhver reynist trúr. En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af ykkur eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur. Ég er mér ekki neins ills meðvitandi en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig. Dæmið því ekki fyrir tímann áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós sem í myrkrinu er hulið og afhjúpa allt sem í hjarta dylst. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði sem hann á skilið.

Guðspjall: Matt 11.2-10


Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“ Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“ Þegar þeir voru farnir tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá sem um er ritað: Ég sendi sendiboða minn á undan þér, hann á að greiða þér veg.

Sálmur: 19. Upp, gleðjist allir, gleðjist þér


Kirkjuár - Aðventa og jól

hymn notes
1 Upp, gleðjist allir, gleðjist þér, í Guði vorum fagna ber, vort hjálpráð nú er nærri. Ó, heyrið blíðan boðskap þann að borinn er í manndóm hann sem Guð er, himnum hærri. 2 Burt, hryggð, úr allra hjörtum nú, kom, heilög gleði, svo í trú vér Jesúm faðmað fáum og elskan heit af hjartans rót þeim himingesti taki mót með lofsöngs hljómi háum. 3 Ó, virstu, góði Guð, þann frið sem gleðin heims ei jafnast við í allra sálir senda og loks á himni lát oss fá að lifa jólagleði þá sem tekur aldrei enda.


T Thomas Kingo 1689 – Þorvaldur Böðvarsson – Sb. 1801 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
O gode Gud, jeg takker dig
L Niels W. Gade 1836 – JH 1885
O gode Gud, jeg takker dig / Op, glædes alle, glædes nu

Eldra númer 69
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Jóh. 1.14