20. sunnudagur eftir þrenningarhátíð (Allra sálnamessa)

Reglur Guðs. Að lifa í samfélagi hvert við annað

Dagsetning

02. Nóvember. 2025

Litur

Grænn.

Vers dagsins

Hann hefur sagt þér maður hvað gott sé. Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti fyrir Guði þínum? Míka 6, 8

Kollekta


Drottinn, við biðjum þig: Veit þeim sem á þig trúa af náð þinni fyrirgefningu þína og frið svo að þau hreinsist af öllum syndum og þjóni þér með öruggu hjarta. Fyrir son þinn Jesú Krist frelsara okkar og Drottin sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía: Sálm 56.4-5,9-14


Þegar ég hræðist set ég traust mitt á þig. Með Guðs hjálp lofa ég orð hans. Ég treysti Guði, ég óttast eigi, hvað geta dauðlegir menn gert mér? Þú hefur talið hrakninga mína, safnað tárum mínum í sjóð þinn, þau eru rituð í bók þína. Þannig munu óvinir mínir hörfa undan er ég hrópa. Þá veit ég að Guð er með mér. Með Guðs hjálp lofa ég orð hans, með hjálp Drottins lofa ég orð hans. Ég treysti Guði, ég óttast ekki, hvað geta mennirnir gert mér? Á mér hvíla heit við þig, Guð, ég mun efna þau með þakkarfórn til þín því að þú frelsaðir sál mína frá dauða og fætur mína frá hrösun svo að ég megi ganga frammi fyrir Guði í ljósi lífsins.

Pistill: Ef 5.15-21


Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists. Sýnið Kristi lotningu og hvert öðru auðsveipni.

Guðspjall: Matt 22.1-14


Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu. Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum. Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“

Sálmur: 178. Fyrst boðar Guð


Kirkjuár - Hvítasunna til aðventu

hymn notes
1 Fyrst boðar Guð sitt blessað náðarorðið, svo býður hann sitt ríka kærleiksborðið og sendir einkason sinn til að kalla til sinnar kvöldmáltíðar alla – alla. 2 En fyrsti' og annar afsökunar biðja og eins fer fyrir boðsmanninum þriðja og það er kunngjört Herra hefðarríkum að heimsins börn ei sinni boðskap slíkum. 3 Þá spyr hann að hvort veikir ekki vilji, hvort volaðir og blindir ekki skilji, þá býður hann þeim bjargarlausu' og snauðu, þeim breysku, særðu, föllnu, týndu' og dauðu. 4 Hvert orð er sterkast? Orðið hans er kallar. Sjá, einnig dauðir ganga lífs til hallar, þeir koma' í hópum heimurinn sem smáir, en Herrann segir: „Þeir eru' enn of fáir.“ 5 Hann býður enn þá: „Farið, laðið, leiðið og leitið, kallið, biðjið, þrýstið, neyðið, mitt kærleiks djúp á himins víðar hallir, í húsi mínu rúmast allir – allir.“ 6 Fyrst kallar Guð en bregðist þú því boði, þá biður Guð og þó að hvorugt stoði, þá þrýstir Guð og það er síðsta orðið, ef því er neitað, hræðstu sálar morðið! 7 Ó, Drottinn, þú sem býður, biður, neyðir, ég blindur er en sonur þinn mig leiðir frá synd og hættum gegnum dauðans dalinn í dýrðar þinnar fagra gleðisalinn.


T Matthías Jochumsson – Sb. 1886
L Andreas P. Berggreen 1828 – PG 1878
Et kors det var det hårde, trange leje

Eldra númer 180
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Lúk. 14.16–24