Páskanótt

Dagsetning

19. Apríl. 2025

Vers dagsins

„Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.“ (Opb 1.18b)

Kollekta


Guð, skapari ljóssins, uppspretta eilífs lífs. Þú upplýsir þessa heilögu nótt og lætur hana ljóma af geislum upprisudýrðar Drottins. Uppvek þau öll sem þú hefur helgað þér í heilagri skírn til nýs lífs og varðveit í þeim anda þinn, svo þau verði augljós sem börn þín og heiðri þig fyrir son þinn Drottin Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar. Amen.

Lexía: 2Mós 14.15-22


Drottinn sagði við Móse: „Hvers vegna hrópar þú til mín? Segðu Ísraelsmönnum að halda af stað. En þú skalt reiða upp staf þinn og rétta hönd þína út yfir hafið og kljúfa það svo að Ísraelsmenn geti gengið á þurru í gegnum hafið. Sjálfur ætla ég að herða hjarta Egypta svo að þeir haldi á eftir þeim. Þá mun ég birta dýrð mína á faraó og öllum her hans, á hervögnum hans og riddurum. Egyptar munu komast að raun um að ég er Drottinn þegar ég birti dýrð mína á faraó, vögnum hans og riddurum.“ Engill Guðs, sem fór fyrir hersveit Ísraels, færði sig aftur fyrir þá og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færði sig og kom sér fyrir að baki þeim svo að hann varð á milli hers Egypta og hers Ísraelsmanna. Skýið var dimmt öðrum megin en lýsti alla nóttina hinum megin. Herirnir nálguðust ekki hvor annan alla þessa nótt. Þá rétti Móse hönd sína út yfir hafið. Drottinn bægði hafinu burt með hvössum austanvindi alla nóttina og þannig gerði hann hafið að þurrlendi. Þá klofnaði hafið svo að Ísraelsmenn gátu gengið á þurru í gegnum það en vatnið stóð eins og veggur þeim til hægri og vinstri handar.

Pistill: Kól 3.1-4


Fyrst þið því eruð uppvakin með Kristi, þá keppist eftir því sem er hið efra þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það sem er hið efra en ekki um það sem á jörðinni er. Því að þið eruð dáin og líf ykkar er fólgið með Kristi í Guði. Þegar Kristur, sem er líf ykkar, opinberast, þá munuð þið og ásamt honum opinberast í dýrð.

Guðspjall: Matt 28.1-8


Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“ Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Sálmur: 137. Dauðinn dó en lífið lifir


Kirkjuár - Páskar til hvítasunnu

hymn notes
1 Dauðinn dó en lífið lifir! Lífs og friðar sólin skær ljómar dauðadölum yfir, dauðinn oss ei grandað fær. Lífið sanna sálum manna sigurskjöld mót dauða ljær. 2 Kóngur lífs á krossi deyddur krónu lífs mér bjó hjá sér, dapur nú er dauði neyddur dýrðarlíf að færa mér. Þótt hann æði, þótt hann hræði, það ei framar skaðvænt er. 3 Hann sem reis með dýrð frá dauða duft upp lætur rísa mitt, leyst úr fornum fjötrum nauða fyrir blóðið helga sitt. Hold og andi lífs á landi lífgjafara sinn fá hitt. 4 Jesú minn sem dauðann deyddir, deyja gef mér eins og þú og við þig, í ljós er leiddir lífið, æ að halda trú. Lát mig þreyja þér og deyja, þrá mín heit og bæn er sú.


T Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
L Joachim Neander 1680 – Darmstadt 1698 – PG 1861
Tut mir auf die schöne Pforte / Unser Herrscher, unser König

Eldra númer 156
Eldra númer útskýring T+L