Páskadagur Hinn krossfesti lifir / Gegnum dauðann til lífsins

Dagsetning

20. Apríl. 2025

Litur

Hvítur.

Vers dagsins

„Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.“ (Opb 1.18b) Drottinn er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn!

Kollekta


Eilífi Guð og faðir, þú sem með sigri einkasonar þína á dauðanum hefur opnað okkur dyrnar til eilífs lífs: Hjálpa okkur að sú góða von og þrá sem þú hefur vakið í okkur megi lifa og dafna hjá þér. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía: Slm 118.14-24


Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, hann varð mér til hjálpræðis. Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra: „Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk, hægri hönd Drottins er upphafin, hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“ Ég mun eigi deyja heldur lifa og kunngjöra dáðir Drottins. Drottinn hefur hirt mig harðlega en eigi ofurselt mig dauðanum. Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin. Þetta er hlið Drottins, réttlátir ganga þar inn. Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig og komst mér til hjálpar. Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn að hyrningarsteini. Að tilhlutan Drottins er þetta orðið, það er dásamlegt í augum vorum. Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glaðir á honum.

Pistill: 1Kor 5.7-8


Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Guðspjall: Mrk 16.1-7


Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Sálmur: 144. Í austri rís upp ársól skær


Kirkjuár - Páskar til hvítasunnu

hymn notes
1 Í austri rís upp ársól skær, í austri sólin, Jesús kær, úr steinþró djúpri stígur, sú páskasólin björt og blíð er birtist öllum kristnum lýð og aldrei aftur hnígur. Jesú, Jesú! Sigur' er unninn, sól upp runnin sannrar gleði vina þinna grátnu geði. 2 Það ógnarbjarg er oltið frá er yfir gröf vors Drottins lá og gröfin opnuð aftur. Ó, hver tók líka burt það bjarg á brjósti mér er lá sem farg? Það gjörði, Guð, þinn kraftur. Jesú, Jesú! Bjargið trausta, hetjan hrausta, hjartakæra, bjarg sem enginn burt skal færa. 3 Í Drottins gröf varð blítt og bjart, þar birtust englar ljóss með skart og ásýnd undurfríða. Í hverri gröf sem grafin er í gegnum myrkrið trúin sér Guðs engla birtast blíða. Jesú, Jesú! Virst þeim láta' er liðna gráta legstað yfir engla boða' að látinn lifir. 4 Sem upp rís sól um árdagsstund og upp rís blóm á þíðri grund úr köldum klakahjúpi, svo upp rís síðar eilíft ljós og óvisnanleg himinrós úr dauðans myrkradjúpi. Jesú, Jesú! Þótt ég deyi' eg óttast eigi, æðri kraftur leiðir mig til lífsins aftur.


T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Philipp Nicolai 1599 – Sb. 1619
Wie schön leuchtet der Morgenstern

Eldra númer 148b
Eldra númer útskýring T+L