4. sunnudagur í aðventu

Fagnaðarhátíðin færist nær.

Dagsetning

22. Desember. 2024

Litur

Rósbleikur eða rauðbleikur.

Söngur

Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.

Vers dagsins

„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.“ „Drottinn er í nánd.“ (Fil 4.4 og 5b)

Kollekta


Við biðjum þig, Drottinn: Kom í krafti þínum og hjálpa okkur, svo að allt hið góða sem syndir okkar hindra megi fá framgang sakir náðar þinnar, þú sem lifir og rikir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía: Jes 52.7-10


Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: „Guð þinn er sestur að völdum.“ Heyr, varðmenn þínir hefja upp raustina, hrópa fagnaðaróp allir í einu því að með eigin augum sjá þeir Drottin hverfa aftur til Síonar. Hefjið upp fagnaðarsöng allar í einu, rústir Jerúsalem, því að Drottinn hefur huggað þjóð sína, endurleyst Jerúsalem. Drottinn hefur afhjúpað heilagan armlegg sinn í augsýn allra þjóða og allt til endimarka jarðar munu menn sjá hjálpræði Guðs vors.

Pistill: Fil 4.4-7


Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi ykkar verði kunnugt öllum mönnum. Drottinn er í nánd. Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.

Guðspjall: Jóh 1.19-28


Þessi er vitnisburður Jóhannesar þegar ráðamenn í Jerúsalem sendu til hans presta og Levíta til að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Hann svaraði ótvírætt og játaði: „Ekki er ég Kristur.“ Þeir spurðu hann: „Hvað þá? Ertu Elía?“ Hann svarar: „Ekki er ég hann.“ „Ertu spámaðurinn?“ Hann kvað nei við. Þá sögðu þeir við hann: „Hver ert þú? Við verðum að svara þeim er sendu okkur. Hvað segir þú um sjálfan þig?“ Hann sagði: „Ég er sá sem Jesaja spámaður talar um. Ég er rödd hrópanda í eyðimörk er segir: Gerið beinan veg Drottins.“ Sendir voru menn af flokki farísea. Þeir spurðu hann: „Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?“ Jóhannes svaraði: „Ég skíri með vatni. Mitt á meðal ykkar stendur sá sem þið þekkið ekki, hann sem kemur eftir mig og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“ Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.

Sálmur: 4. Gjör dyrnar breiðar


Kirkjuár - Aðventa og jól

hymn notes
1 Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt. Þú, Herrans kristni, fagna mátt því kóngur dýrðar kemur hér og kýs að eiga dvöl hjá þér. 2 Hann býður líknar blessað ár, hann býður dýpst að græða sár, hann býður þyngstu' að borga sekt, hann býður aumra' að skýla nekt. 3 Sjá, mildi' er lögmál lausnarans, sjá, líkn er veldissproti hans. Því kom þú, lýður kristinn, nú og kóngi dýrðar fagna þú. 4 Hve sælt það land, hve sælt það hús er sælugjafinn líknarfús sér trútt og hlýðið fundið fær, þar friður, heill og blessun grær. 5 Hve sælt það hjarta ávallt er sem ást til Krists með lotning ber og honum í sér bústað býr, að bragði sorg öll þaðan flýr. 6 Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt, þig, hjarta, prýð sem best þú mátt og trúarlampann tendra þinn og til þín bjóð þú Jesú inn. 7 Ég opna hlið míns hjarta þér, ó, Herra Jesú, bú hjá mér að fái hjálparhönd þín sterk þar heilagt unnið náðarverk. 8 Ó, kom, minn Jesú, kom sem fyrst, ó, kom og mér í brjósti gist, ó, kom þú, segir sála mín, ó, seg við mig: Ég kem til þín.


T Georg Weissel 1623 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
Macht hoch die Tür, die Tor macht weit
L Augsburg 1666 – Vb. 1991
O Heiland, reiß die Himmel auf

Eldra númer 59
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Sálm. 24.7–10