9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - Hólahátíð Gjafir andans / Góðir ráðsmenn
Grænn.
Vers dagsins„Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.“ (Lúk 12.48b)
Kollekta
Almáttugi Guð: Heyr í mildi bænir vorar, sem leitum ásjár þinnar og gef, að við óskum þess eins, sem þér er þóknanlegt, svo að þú fáir veitt okkur það, sem við biðjum um. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Okv 2.1-6
Sonur minn, ef þú hlýðir orðum mínum og geymir boðorð mín hjá þér, veitir spekinni athygli þína og hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim eins og silfri og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá mun þér lærast að óttast Drottin og veitast þekking á Guði. Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.
Pistill: 1.Jóh. 3. 19-24
Af þessu munum við þekkja að við erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu okkar frammi fyrir honum, hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt. Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við djörfung til Guðs. Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt. Og þetta er hans boðorð, að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið okkur boðorð um. Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í okkur þekkjum við af andanum sem hann hefur gefið okkur.
Guðspjall: Lúk 16.1-9
Enn sagði Jesús við lærisveina sína: „Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann og var honum sagt að ráðsmaðurinn sóaði eigum hans. Ríki maðurinn lét kalla ráðsmanninn fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta er ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir störfum þínum því að þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég hvað ég geri til þess að menn taki við mér í hús sín þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni. Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu. Og húsbóndinn hrósaði svikula ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins. Og ég segi ykkur: Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir þegar hann er uppurinn.
Sálmur: 186. Ó, skapari, hvað skulda ég
Kirkjuár - Hvítasunna til aðventu