4. sunnudagur eftir þrettánda
Herra náttúruaflanna / Bænadagur að vetri
Komið og sjáið verk Guðs, undursamleg verk hans meðal manna: Sálm. 66.5
Kollekta
Guð, þú sem veist, að við erum í slíkum háska stödd að við fáum ekki staðist án þín: Gjör okkur heil á sál og líkama, að við með hjálp þinni sigrumst á því sem þjakar okkur sakir synda okkar. Fyrir son þinn Jesú Krist frelsara okkar og Drottin sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 40.25-31
Við hvern ætlið þér að líkja mér, hver er jafningi minn? spyr Hinn heilagi. Hefjið upp augun og horfið til himins. Hver hefur skapað allt þetta? Það er hann sem kannar her stjarnanna, allan með tölu, nefnir þær allar með nafni. Þar sem hann er mikill að mætti og voldugur að afli verður engrar vant. Hvers vegna segir þú, Jakob, hvers vegna talar þú svona, Ísrael: „Vegur minn er hulinn Drottni, Guð minn skeytir ekki um rétt minn.“ Veistu ekki eða hefur þú ekki heyrt að Drottinn er eilífur Guð sem skapaði endimörk jarðar? Hann þreytist ekki, hann lýist ekki, viska hans er órannsakanleg. Hann veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt. Ungir menn þreytast og lýjast, æskumenn hnjóta og falla en þeir sem vona á Drottin fá nýjan kraft, þeir fljúga upp á vængjum sem ernir, þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.
Pistill: Róm 13.8-10
Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.
Guðspjall: Matt 8.23-27
Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“ Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“
Sálmur: 85. Þótt æði stormar heims um haf
Kirkjuár - Nýár til föstu