12. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Lækningin mikla / Frelsið í Kristi

Dagsetning

07. September. 2025

Litur

Grænn.

Vers dagsins

„Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur og dapran hörkveik slekkur hann ekki.“ (Jes 42.3a)

Kollekta


Almáttugi, miskunnsami Guð. Það er gjöf náðar þinnar að þau sem trúa á þig veiti þér verðuga og lofsamlega þjónustu. Við biðjum þig: Gef að við megum höndla fyrirheit þín án þess að hrasa. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía: Jes 29.17-24


Er ekki skammt þar til Líbanon verður að aldingarði og Karmel talið skóglendi? Á þeim degi munu daufir heyra orð lesin af bók og augu blindra sjá þrátt fyrir skugga og myrkur. Þá mun gleði auðmjúkra aukast yfir Drottni og hinir fátækustu meðal manna munu fagna yfir Hinum heilaga Ísraels. Kúgarinn verður ekki lengur til, skrumarinn líður undir lok, öllum, sem hyggja á illt, verður tortímt og þeim sem sakfella menn fyrir rétti, þeim sem leggja snörur fyrir þann sem áminnir í hliðinu og vísa hinum saklausa frá með innantómu hjali. Þess vegna segir Drottinn, sem endurleysti Abraham, við ættbálk Jakobs: Nú þarf Jakob ekki að blygðast sín lengur og andlit hans ekki framar að fölna því að þegar þjóðin sér börn sín, verk handa minna, sín á meðal mun hún helga nafn mitt, helga Hinn heilaga Jakobs og óttast Guð Ísraels og þeir sem eru villuráfandi í anda munu öðlast skilning og þeir sem mögla láta sér segjast.

Pistill: 2Kor 3.4-9


Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar. Lögmálið var skráð með bókstöfum og höggvið á steina. Þó að þeir sem þjónuðu því dæju var dýrð þess slík að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans sem þó varð að engu. Hversu dýrlegri mun þá sú þjónusta vera sem fram fer í anda? Ef þjónustan sem sakfellir var dýrleg þá er þjónustan sem réttlætir enn þá auðugri að dýrð.

Guðspjall: Mrk 7.31-37


Síðan hélt Jesús úr Týrusarbyggðum, um Sídon og yfir Dekapólisbyggðir miðjar til Galíleuvatns. Þá færa menn til hans daufan og málhaltan mann og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: „Effaþa,“ það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Jesús bannaði þeim að segja þetta neinum en svo mjög sem hann bannaði þeim því frekar sögðu þeir frá því. Menn undruðust mjög og sögðu: „Allt gerir hann vel, daufa lætur hann heyra og mállausa mæla.“

Sálmur: 192. Lát opnast augu mín


Kirkjuár - Hvítasunna til aðventu

hymn notes
1 Lát opnast augu mín, minn ástvin himnum á, svo ástarundur þín mér auðnist skýrt að sjá: hið fríða foldarskraut, hinn fagra stjarnaher á loftsins ljómabraut og ljóssins dýrð hjá þér. 2 Lát opnast eyru mín, minn ástarfaðir kær, svo eilíf orðin þín ég ávallt heyri skær: þíns lögmáls hvellan hljóm, þín heilög boð, ei ströng, þíns guðspjalls ástaróm og engla helgan söng. 3 Lát opnast munninn minn svo mál hans, Drottinn kær, þitt vald og vísdóm þinn æ votti nær og fjær. Veit mér að mikla þig á meðan æðar slá, já, lengur lát þú mig þig lofa himnum á. 4 Lát opnast harðlæst hús míns hjarta, Drottinn minn, svo hýsi' eg hjartans fús þar helgan anda þinn. Lát friðmál frelsarans þar föstum bústað ná og orð og anda hans mér ætíð búa hjá. 5 Lát opnast himins hlið þá héðan burt ég fer, mitt andlát vertu við og veit mér frið hjá þér. Þá augun ekkert sjá og eyrun heyra' ei meir og tungan mæla' ei má, þá mitt þú andvarp heyr.


T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Buchanan 1585 – Hymnodia Sacra 1742 – Sb. 1772 – PG 1861
Princeps stelliferis

Eldra númer 190
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Mark. 7.31–37