2. sunnudagur eftir þrenningarhátíð\ Gestaboðið / Köllun til Guðs ríkis
Grænn.
Vers dagsins„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ (Matt 11.28)
Kollekta
Drottinn Guð: Lát okkur jafnan óttast og elska þitt heilaga nafn, því að aldrei bregst þín hjálp og forsjá þeim, sem þú gerir stöðug í kærleikanum. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 55.1-5
Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins og þér sem ekkert fé eigið, komið, komið, kaupið korn og etið, komið, þiggið korn án silfurs og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk. Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður? Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu og endurnærist af feitmeti. Leggið við hlustir og komið til mín, hlustið, þá munuð þér lifa. Ég ætla að gera við yður ævarandi sáttmála og miskunn mín við Davíð mun stöðug standa. Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar, að höfðingja og stjórnanda þjóðanna. Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels, því að hann hefur gert þig vegsamlegan.
Pistill: 1Jóh 3.13-18
Undrist ekki, systkin, þótt heimurinn hati ykkur. Við vitum að við erum komin yfir frá dauðanum til lífsins af því að við elskum bræður okkar og systur. Sá sem ekki elskar er áfram í dauðanum. Hver sem hatar bróður sinn eða systur er manndrápari og þið vitið að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér. Af því þekkjum við kærleikann að Jesús lét lífið fyrir okkur. Svo eigum við og að láta lífið hvert fyrir annað. Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum? Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.
Guðspjall: Lúk 14.16-24
Jesús sagði við hann: „Maður nokkur gerði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. Er stundin kom að veislan skyldi vera sendi hann þjón sinn að segja þeim er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið. Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. Og þjónninn sagði: Herra, það er gert sem þú bauðst og enn er rúm. Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um stíga og vegi og þrýstu á menn að koma inn svo að hús mitt fyllist. Því ég segi ykkur að enginn þeirra sem fyrst voru boðnir mun smakka kvöldmáltíð mína.“
Sálmur: 178. Fyrst boðar Guð
Kirkjuár - Hvítasunna til aðventu