Siðbótardagurinn

Dagsetning

31. Október. 2025

Vers dagsins

Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. 1Kor 3.11

Kollekta


Almáttugi Guð sem vaktir þér votta og lést orð þitt bera nýja birtu af orðum þeirra. Við biðjum þig: Kenn okkur að þekkja hjálpræðismátt þíns heilaga orðs, varðveita það og boða það til sáluhjálpar, þér til dýrðar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin og frelsara okka sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía: Jer 31.31-34


Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég geri nýjan sáttmála við Ísraelsmenn og Júdamenn. Hann verður ekki eins og sáttmálinn sem ég gerði við feður þeirra þegar ég tók í hönd þeim og leiddi þá út úr Egyptalandi. Þeir rufu þann sáttmála við mig þótt ég væri herra þeirra, segir Drottinn. Þannig er sáttmálinn sem ég mun gera við Ísraelsmenn þegar þessir dagar eru liðnir, segir Drottinn: Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn. Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir, segir Drottinn. Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.

Pistill: Róm 3.21-28


En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú. Guð bendir á blóð hans sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú. Hver getur þá hrósað sér? Enginn. Eða af hvaða lögmáli ætti það að vera? Verkanna? Nei, heldur af lögmáli trúar. Ég álít að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka.

Guðspjall: Jóh 8.31-36


Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gera yður frjálsa.“ Fólkið svaraði honum: „Við erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: Þið munuð verða frjálsir?“ Jesús svaraði þeim: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem drýgir synd er þræll syndarinnar. En þrællinn dvelst ekki um aldur á heimilinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi. Ef sonurinn frelsar yður munuð þér sannarlega verða frjálsir.

Sálmur: 612. Vor Guð er borg


Trúarlífið - Kirkjan

hymn notes
1 Vor Guð er borg á bjargi traust, hið besta sverð og verja, hans armi studdir óttalaust vér árás þolum hverja. Nú geyst því gramur er, hinn gamli óvin fer, hans vald er vonsku nægð, hans vopn er grimmd og slægð, á oss hann hyggst að herja. 2 Með eigin kröftum enginn verst, þó eitt má frelsun valda: hinn rétti maður með oss berst er mannkyns skuld réð gjalda. Sá heitið háleitt ber, það heiti Jesús er, hann Guðs er eðlis einn og annar Guð ei neinn. Hann víst mun velli halda. 3 Þótt djöflum fyllist veröld víð þeim vinnst ei oss að hrella því Jesús vor oss veikum lýð er vörn og hjálparhella. Þótt mannkyns morðinginn nú magni fjandskap sinn hann engu orka kann því áður dóm fékk hann. Eitt orð má fljótt hann fella. 4 Hver óvin Guðs skal óþökk fá, hvert orð vors Guðs skal standa því oss er sjálfur Herrann hjá með helgri gjöf síns anda. Þótt taki fjendur féð, já, frelsi' og líf vort með það happ þeim ekkert er en arfi höldum vér. Þeir ríki Guðs ei granda.


T Martin Luther, 1529 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
Ein feste Burg ist unser Gott
L Martin Luther, 1529 – Klug 1533 – Gr. 1594
Ein feste Burg ist unser Gott

Eldra númer 284
Eldra númer útskýring T+L