14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Þakkláti Samverjinn / Eining í Kristi

Dagsetning

21. September. 2025

Litur

Grænn.

Vers dagsins

„Lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.“ (Slm 103.2b)

Kollekta


Drottinn, eilífi Guð, án þín hljóta dauðlegir menn að falla: Við biðjum þig að varðveita kirkju þína í trúfastri miskunn þinni. Kom til hjálpar, vík frá öllum voða og leið okkur á vegi hjálpræðis þíns. Fyrir son þinn Jesú Krist, frelsara okkar og Drottin sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Lexía: Sír 50.22-24


Nú skuluð þér lofa Guð alheims, hann sem hvarvetna gerir máttarverk og veitir oss vegsemd alla ævi frá fæðingu og breytir við oss samkvæmt miskunn sinni. Gefi hann oss gleði í hjarta og veiti Ísrael frið um vora daga eins og var fyrir örófi alda. Megi miskunn hans stöðug vera með oss og megi hann frelsa oss um vora daga.

Pistill: Gal 5.16-24


En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli. Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki. En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

Guðspjall: Lúk 17.11-19


Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“

Sálmur: 192. Lát opnast augu mín


Kirkjuár - Hvítasunna til aðventu

hymn notes
1 Lát opnast augu mín, minn ástvin himnum á, svo ástarundur þín mér auðnist skýrt að sjá: hið fríða foldarskraut, hinn fagra stjarnaher á loftsins ljómabraut og ljóssins dýrð hjá þér. 2 Lát opnast eyru mín, minn ástarfaðir kær, svo eilíf orðin þín ég ávallt heyri skær: þíns lögmáls hvellan hljóm, þín heilög boð, ei ströng, þíns guðspjalls ástaróm og engla helgan söng. 3 Lát opnast munninn minn svo mál hans, Drottinn kær, þitt vald og vísdóm þinn æ votti nær og fjær. Veit mér að mikla þig á meðan æðar slá, já, lengur lát þú mig þig lofa himnum á. 4 Lát opnast harðlæst hús míns hjarta, Drottinn minn, svo hýsi' eg hjartans fús þar helgan anda þinn. Lát friðmál frelsarans þar föstum bústað ná og orð og anda hans mér ætíð búa hjá. 5 Lát opnast himins hlið þá héðan burt ég fer, mitt andlát vertu við og veit mér frið hjá þér. Þá augun ekkert sjá og eyrun heyra' ei meir og tungan mæla' ei má, þá mitt þú andvarp heyr.


T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Buchanan 1585 – Hymnodia Sacra 1742 – Sb. 1772 – PG 1861
Princeps stelliferis

Eldra númer 190
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Mark. 7.31–37