Sálmabók
780. Ég byrja reisu mín
Trúarlífið - Ferðasálmar
1 Ég byrja reisu mín,
Jesú, í nafni þín,
höndin þín helg mig leiði,
úr hættu allri greiði.
Jesús mér fylgi' í friði
með fögru englaliði.
2 Í voða, vanda´ og þraut
vel ég þig förunaut,
yfir mér virstu vaka
og vara á mér taka.
Jesús mér fylgi' í friði
með fögru englaliði.
3 Þá vil ég þakka þér
nær þú hefur hjálpað mér
sem Jakob faðirinn forðum
með fögrum bænarorðum.
Jesús mér fylgi' í friði
með fögru englaliði.
4 Þú skalt í allri nauð
ætíð vera minn Guð,
þér vil ég þjóna, trúa
og þakkargjörð tilbúa.
Jesús mér fylgi' í friði
með fögru englaliði.
5 Mitt hjartans trúartraust
til þín er efalaust,
að mér með miskunn skærri
munir þú vera nærri.
Jesús mér fylgi' í friði
með fögru englaliði.
6 Ljóst þegar lífið dvín
leið þú mig heim til þín
í föðurlandið fríða,
firrtan við allan kvíða.
Jesús mér fylgi' í friði
með fögru englaliði.
T Hallgrímur Pétursson (1632) 1637 – Sb. 1972
L Jacob Regnart 1574 – Vulpius 1609 – Schein 1627 – Sb. 1619 – Sb. 1997
Auf meinen lieben Gott (íslensk breyting)
Eldra númer 493
Eldra númer útskýring T+L