Sálmabók
761. Ljómi Guðs veru
Trúarlífið - Vor og sumar
1 Ljómi Guðs veru líður nú
um landsins fjallasal.
Gengur af himni geislabrú
í gegnum jarðardal.
2 Lífsandinn frjálsi lausnarans
líður um hvelin víð.
Öll mænir skepnan upp til hans
að endurlausnar tíð.
3 Fótspor hans minnast fjallið við
en frá því ber hann ský
dagsins um opna himins hlið.
Hann kemur eins á ný.
4 Dagurinn geislabryddir börð,
bregða þau litum ótt.
Englarnir syngja' um alla jörð
eins og á jólanótt.
5 Loftið er fullt af fuglasveim,
fögru þeir landi ná.
Vísaði Drottinn vængjum þeim
veg yfir djúpin blá.
6 Sunnan fer tær af sólu nú
sumarsins heiti blær.
Vermir þig Kristur von og trú
viljir þú ganga nær.
7 Kveikir af steinum kærleiksyl
við kvelds og morguns tjald
höndin sem lagði hnatta bil,
himins og jarðar vald.
8 Kristur, úr þínum konungs sal
kemur þú, lífs míns vörn.
Kallar þú heim frá dauðans dal
duftsins og tímans börn.
T Rósa B. Blöndals – Sb. 1972
L Pierre Davantès 1562 – Johann Crüger 1653 – Vb. 1976
GRÄFENBERG / Nun danket all und bringet Ehr
Eldra númer 169
Eldra númer útskýring T+L