Sálmabók

494b. Drottinn, Guðs sonur

Trúarlífið - Jesús Kristur

hymn notes
1 Drottinn, Guðs sonur, sem duftið mitt bar, dó til að lífga mitt fölskvaða skar, reis upp af gröf svo að gæti hann mér gefið sitt eilífa ríki með sér. 2 Kristur, í náð þinni komstu til mín, kveiktir það ljós er mig vakti til þín, orðið þitt varð mér að lifandi lind, ljómaði við mér þín heilaga mynd. 3 Þú hefur játast mér eins og ég er, augað þitt heilaga þekkir og sér hjarta mitt, vafið í villu og tál, vilja minn blindan og flekkaða sál. 4 Samt viltu eiga mig, allsvana barn, eigrandi skugga um vegalaust hjarn, sekt minni gleyma þótt særði ég þig, sýkna og lækna og umskapa mig. 5 Trúin mín sér þig og sólin mér skín, sála mín fagnar og brosir til þín, vaknar sem blómið þá veturinn fer, vegsamar lífið sem kemur með þér. 6 Frelsari heimsins, mitt hjarta er þitt, hugsun mín, vilji og allt sem er mitt lofi og kunngjöri kærleika þinn, konungur, bróðir og lífgjafi minn.


T Sigurbjörn Einarsson – Sb. 1997
L Mons L. Takle 1983 – Vb. 2013
Utvald i Kristus

Eldra númer 711
Eldra númer útskýring T

Uppáhalds sálmar

Under Construction