Sálmabók

297. Tunga mín af hjarta hljóði

Guðsþjónustan - Samfélagið um Guðs borð

hymn notes
1 Tunga mín af hjarta hljóði helgan leyndardóm um þann, líkam Krists og blessað blóðið bót sem öllum heimi vann, konungs þjóða þá hins góða það á krossi' úr æðum rann. 2 Oss var gefinn, oss var fæddur öllum helgri meyju af, meðan hér var holdi klæddur heimi náðarorðið gaf, ævi sína svo lét dvína. Sjá hér Drottins kærleiks haf. 3 Síðstu nótt, þá sat að borði sjálfur Kristur bræðrum með lögmáls gjörla eftir orði – engin máltíð dýrri' er séð – höndum hreinum sínum sveinum sig til fæðu gefa réð. 4 Hold í brauði, blóð í víni bauð sitt væri Drottinn kær. Miskunn slík þótt manna' ei skíni myrkum skilning, trúum vær. Trúin eina hjarta hreinu huggun, gleði' og styrkleik fær. 5 Helgidóm svo háan allir heiðra skulum alla tíð. Gamlar lögmálsfórnir falli fyrir Drottins nýjum sið. Trúin mæta best má bæta brestinn skilnings kristnum lýð. 6 Sönnum Guði, son getanda, syni getnum fyrir' upphaf, huggaranum, helgum anda, hinum tveim sem kemur af, æ skal syngja sérhver tunga sanna vegsemd, dýrð og lof.


T Thomas Aquinas 13. öld – Sb. 1589 – Stefán Thorarensen – Vb. 1861
Pange Lingua
L John F. Wade 1743 – Luxemburg 1768 – Sb. 1871
ST. THOMAS (HOLYWOOD) / PANGE LINGUA

Eldra númer 228
Eldra númer útskýring T+L

Uppáhalds sálmar

Under Construction