Sálmabók

165. Skín á himni skír og fagur

Kirkjuár - Hvítasunna til aðventu

hymn notes
1 Skín á himni skír og fagur hinn skæri hvítasunnudagur er dregur nafn af Drottins sól, dagurinn er Drottins andi af dýrðarinnar björtu landi hér steig á hels og harma ból. Því syngjum sigurlag og signum þennan dag. Drottins andi, oss heill veit þá að himnum á vér hátíð slíka megum sjá. 2 Fyrstu vinir sjálfs Guðs sonar þeir sátu milli ótta' og vonar á þessum Drottins degi fyr, allir þó með einum huga sem engin þrenging kunni buga og andans biðu öruggir. Með einum huga enn svo allir séu menn. Einn sé andi og ein sé lund um alla stund og ein sé von um gleðifund. 3 Skyndilega heyrðist hvinur sem hvasst er veður yfir dynur og fyllti húsið fljótt hjá þeim. Drottins anda kærleikskraftur svo kemur mörgum sinnum aftur, hann fyllir enn upp allan heim. Ef þungt hann andar á, þá ekkert standast má en hann andar þó aftur blítt og hægt og hlýtt og hjartað gjörir milt og þýtt. 4 Liðu tákn í lofti skæru sem leifturtungur bjartar væru og settust yfir sérhvern þar. Tungur enn með leiftri ljóma og lofstír Drottins þöglar róma hans veldi' og dýrð til vegsemdar. Hvert lauf í lágum dal, hvert ljós í himinsal eru tungur er tala hátt þótt hafi lágt um Herrans speki, gæsku' og mátt. 5 Allir fylltust anda hreinum, Guðs andi kenndi lærisveinum að tala ókunn tungumál. Fyll þú brjóst vor, friðarandi, og fjötrum svipt og sterku bandi af vorri tungu, vorri sál. Ó, lát þinn lausnarkraft vort leysa tunguhaft. Allar tungur með allan mátt á allan hátt þér alla vegsemd rómi hátt.


T Valdimar Briem – Sb. 1886
L Philipp Nicolai 1599 – Hymnodia Sacra 1742 – Sb. 1871
Wachet auf, ruft uns die Stimme

Eldra númer 171b
Eldra númer útskýring T+L
Biblíutilvísun Post. 2.1–4

Uppáhalds sálmar

Under Construction