Mynd sem tengist textanum
Heimilisfang
Gröf, Siglufjarðarvegi á Höfðaströnd, 566 Hofsósi
Kirkjugarður

Bænhúsið í Gröf (Grafarkirkja)

Grafarkirkja er friðlýst torfkirkja, sem byggð var fyrst árið 1675. Hún hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1939. Byggingarsaga Grafarkirkju nær að minnsta kosti aftur á 17. öld. Helgihald lagðist niður í Grafarkirkju um miðja 18. öld og var kirkjan notuð lengi sem skemma, en ætíð kallað bænhús, enda var prédikunarstóllinn ekki tekinn niður. Í kjölfar þess að Matthías Þórðarson þjóðminjavörður skoðaði húsið 1938 eignaðist Þjóðminjasafnið það árið eftir. Þegar húsið var tekið á fornleifaskrá árið 1948 og hafist handa um viðgerð þess var húsið mjög lasið og kom í ljós að gömlu viðirnir reyndust ónothæfir og allur efniviður hússins því endurnýjaður, en sniðnir nákvæmlega eftir þeim gömlu. Það eina sem varðveist hefur af gömlu viðunum eru vindskeiðarnar sem geymdar eru í Þjóðminjasafni.

Húsið var endurvígt að lokinni viðgerð þann 12. júlí árið 1953. Kirkjan er með torfveggjum úr streng meðfram langhliðum, en timburstafnar með slagþili snúa í austur og vestur. Grind kirkjunnar er úr stafverki með miðsyllum og krossreistu sperruþaki með reisifjöl á langböndum. Torf er á þaki, en undir því bárujárn. Altarið og altaristaflan eru í barokkstíl. Taflan er frá árinu 1680, fyrir miðju er kvöldmáltíðarmynd að neðan og krossfestingarmynd að ofan, en innan á vængjum eru myndir postulanna Andrésar og Tómasar. Hún er nú á Þjóðminjasafninu. Kirkjuklukkan hangir í klukknaporti, sem er tilgátusmíð.