Mynd sem tengist textanum
Bílastæði
Kirkjugarður
Fjöldi: 70

Staðarhraunskirkja

Staðarhraunskirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1888–1889. Hönnuður hennar var Þorsteinn S. Hjálmarsson, forsmiður. Í öndverðu var þak spónlagt, veggir voru klæddir láréttri, plægðri borðaklæðningu og á kirkjunni voru ferstrendir, fjögurra rúðu gluggar. Hvelfing var yfir kór en súðarloft yfir framkirkju. Árið 1895 var smíðað loft í fremsta stafgólf framkirkju en hvelfing yfir innri hluta framkirkju inn að kórhvelfingu. Um 1900 voru suðurhlið og kórbak klædd bárujárni og þakið um 1910. Árið 1954 voru steyptir veggir utan um kirkjuna, bogadregnir gluggar settir í hana, forkirkja úr steinsteypu byggð og kirkjan klædd að innan með masónítplötum. Þak kirkjunnar er krossreist og upp af vesturstafni er lágur, ferstrendur turn og á honum pýramídaþak. Kirkjan er múrhúðuð, þök og turn klædd bárujárni en turnþak sléttu járni. Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir gluggar með sjö rúðum, einn á framstafni kirkju og lítill gluggi sömu gerðar hvorum megin á forkirkju.

Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir. Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1957 eftir Barböru Árnason, listmálara og sýnir Jesú blessa börnin. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem voru áður í Hítardalskirkju. Kaleikurinn er smíðaður í London skömmu fyrir aldamótin 1500. Patínan er yngri, en er einnig erlend smíð. Í kirkjunni er skírnarfat úr tini frá miðri 18. öld. Kirkjuklukkur Staðarhraunskirkju eru tvær. Sú stærri er frá árinu 1707 og var áður í Hítardalskirkju, hin er frá árinu 1731.

Prestar
Mynd sem tengist textanum
  • Brynhildur Óla Elínardóttir
  • Sóknarprestur