Mynd sem tengist textanum

Sjávarborgarkirkja

Sjávarborgarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1853. Hönnuður hennar var Guðjón Jónsson snikkari. Árið 1972 var kirkjan gefin Þjóðminjasafninu og hún tekin á þjóðminjaskrá. Ákveðið var að flytja kirkjuna á nýjan stað og gera við hana. Viðgerðinni var lokið árið 1983 og var hún þá endurvígð.

Þak kirkjunnar er krossreist og lítill trékross upp af framstafni. Kirkjan er klædd tjörguðu slagþili og rennisúð og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir póstagluggar með tveimur þriggja rúðu römmum, fjögurra rúðu gluggi er ofarlega á hvorum stafni og einn í kvisti á austurhlið þaks. Fyrir kirkjudyrum eru vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð. Altaristaflan er kvöldmáltíðarmynd eftir Jón Hallgrímsson frá Kasthvammi. Hún var máluð árið 1782 og var upphaflega í Stóra Holtskirkju í Fljótum. Prédikunarstóllinn er sexstrendur og ómálaður. Hann var smíðaður árið 1719 og var upphaflega í Tröllatungukirkju. Kirkjan á skírnarfat úr messing. Kirkjuklukka Sjávarborgarkirkju er úr kopar og er frá árinu 1727.