- Sigríður Óladóttir
- Sóknarprestur

Árneskirkja, gamla
Árneskirkja gamla er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1850. Hönnuður hennar var Magnús Gunnlaugsson forsmiður. Á árunum 1886–1891 var kirkjunni breytt og var þá meðal annars loft yfir framkirkju lengt, hvelfing smíðuð yfir kór og strikasylla undir hana efst á veggjum, bogagluggar settir í kirkjuna og þakturn smíðaður. Hönnuður breytinganna var Konráð Friðrik Jóhannesson timburmaður. Þakið er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með píramítaþaki. Kirkjan er klædd listaþili en þök bárujárni. Hún stendur á steinhlöðnum sökkli og er stöguð niður á hornum og miðri suðurhlið.
Á hvorri hlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir gluggar, einn minni ofarlega á kórbaki en fjögurra rúðu krosspóstagluggi á framstafni. Bogadregið hljómop með hlera fyrir er á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir og um þær skoraðar flatsúlur og bjór yfir. Altaristaflan er eftir Carl Fries frá árinu 1859 og sýnir Krist í Emmaus. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru nýlegir gripir, gerðir í rómönskum stíl og eru ensk smíð. Þá á kirkja skírnarfat úr messing, sem er líklega þýskt frá 17. öld. Klukkur Árneskirkju eru frá árunum 1733 og 1823.