Sérþjónusta kirkjunnar
Sérþjónustan Þjóðkirkjunnar byggir á því að tiltekinn hópur fólks í vissum aðstæðum myndar söfnuð sem ekki getur notið hefðbundinnar kirkjulegrar þjónustu vegna sérstakra aðstæðna sem ýmist vara ævina út svo sem hjá heyrnarlausum, fötluðum, sjúkum og deyjandi eða eru tímabundnar eins og hjá föngum, sjúkum sem fá endurheimt heilsu, og innflytjendum.
Allt þetta fólk tilheyrir að sönnu formlega séð söfnuði í tilteknu prestakalli, en getur ekki nýtt sér þá þjónustu sem þar býðst vegna aðstæðna sinna.
Segja má því að þetta sé frumástæða þess að kirkjan hefur talið þörf á því að setja á laggirnar sérþjónustuprestsembætti. Þjóðkirkjan heldur nú úti prestum fatlaðra, fanga, heyrnarlausra, innflytjenda og flóttafólks. Þá eru einnig starfandi æskulýðsprestar víða um land sem og sjúkrahúsprestar á sjúkrahúsum í Reykjavík og á Akureyri.
Prestur fatlaðra
Þjónusta prests fatlaðra nær yfir þá staði þar sem fólk með fötlun lifir og starfar svo sem á heimilum, sambýlum, vinnustöðum, stofnunum og skólum. Starfið einkennist af ferðum til og frá þessum stöðum sem og samskiptum við fólk með þroskahömlun, aðstandendur og fagfólk.
Prestur fatlaðra er með fasta viðtalstíma á skrifstofu sinni í Grensáskirkju mánudaga til föstudaga frá klukkan 10:00 til 12:00, en einnig fasta viðtalstíma einu sinni í viku á fjórum vinnustöðum fyrir fólk með þroskahömlun.
Heimsóknir og húsvitjanir á vinnustaði, skammtímavistanir, heimili fatlaðra og fleira á hverju ári eru um 200 talsins. Annan hvern fimmtudag yfir vetrartímann er boðið upp á helgihald og samverur í Grensáskirkju milli klukkan 16:00 og 17:00 og eru þær vel sóttar.
Eitt umfangsmesta verkefni starfsins er fermingarfræðsla ungmenna með þroskahömlun. Fermingarfræðslan fer fram einu sinni í viku í grunnskólum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið og utan þess. Auk þess er boðið upp á samverustundir í Grensáskirkju einu sinni í mánuði með fermingarbörnunum og aðstandendum þeirra.
Hluti starfans er jafnframt að kynna málefni fatlaðra sem víðast innan kirkjunnar og vera öðrum prestum innan handar hvað varðar þjónustu við einstaklinga með fötlun. Fyrirlestar, erindi og námskeið eru haldin á hverju ári fyrir hin ýmsu félagasamtök, stofnanir og fagaðila sem tengjast málefnum fatlaðra.
Mitt í allri mannréttindabaráttu stendur Þjóðkirkjan og hlutverk hennar í mannréttindabaráttu fatlaðs fólks er að gæta þess að fólk hafi rými og rödd innan samfélagsins og minna stöðugt á að öll erum við sköpuð í mynd Guðs og þess vegna höfum við öll hvert og eitt mikilvægu hlutverki að gegna í þessum heimi. Fatlaðir eru hluti af litrófi sköpunarinnar og dýrmætur og nauðsynlegur hluti af hverju einasta samfélagi.
Prestur fatlaðra er Guðný Hallgrímsdóttir.
Prestur heyrnarlausra
Kirkja heyrnarlausra hefur verið starfandi frá árinu 1981 og hefur skapað sér stóran sess í samfélagi heyrnarlausra hér á landi. Söfnuðurinn er ekki bundinn við ákveðna sókn heldur nær yfir allt landið þar sem táknmálstalandi einstaklingar búa.
Prestur heyrnarlausra sér um kirkjulegar athafnir lílkt og í öðrum söfnuðum fyrir heyrnarlausa og fjölskyldur þeirra. Messað er í Grensáskirkju að jafnaði einu sinni í mánuði og syngur kór heyrnarlausra á táknmáli í messunum. Eftir messu er boðið upp á messukaffi og notalegt spjall.
Prestur heyrnarlausra hefur aðsetur í Grensáskirkju þar sem hann hefur skrifstofu og aðstöðu til þess að taka á móti fólki. Þá fer prestur heyrnarlausra einnig reglulega í heimsóknir á sjúkrastofnanir, hjúkrunarheimili og heim til þeirra sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.
Prestur heyrnarlausra vinnur einnig náið með Félagi heyrnarlausra, sem vinnur ómetanlegt starf í þágu heyrnarlausra. Má þar til dæmis nefna vikulegt opið hús sem er vel sótt af heyrnarlausum.
Þá tekur prestur heyrnarlausra þátt í samverustundum eldri heyrnarlausra sem fara fram vikulega á hjúkrunarheimilinu Mörk. Mikil ánægja er með þessar stundir og aðbúnaður í Mörkinni er allur til fyrirmyndar, fallegt umhverfi og heilmikið líf.
Prestur heyrnarlausra er sr. Kristín Pálsdóttir.
Prestur innflytjenda og flóttafólks
Prestar innflytjenda eru í þjónustu við innflytjendur og flóttafólk á Íslandi.
Þeir boða fagnaðarerindi Jesú Krists meðal innflytjenda og flóttafólks og veita einnig prakstíska aðstoð eftir þörfum safnaðarins, sem felur í sér sálgæslu, Biblíufræðslu, skírnarfræðslu og svo framvegis.
Prestar innflytjenda eru tilbúnir að veita öllum söfnuðum Þjóðkirkjunnar aðstoð hvað varðar innflytjendur og flóttafólk svo að sérhver söfnuður skapi sér tækifæri til að taka á móti fólki af erlendum uppruna og auðga fjölbreytleika í safnaðarlífi. Aðalstarfsvettvangur presta innflytjenda er Alþjóðlegi söfnuðurinn sem hefur aðsetur í Breiðholtskirkju og er helgihald á ensku alla sunnudaga kl. 14:00 nema í kringum verslunarmannahelgi og áramót. Bænastundir utan Breiðholtskirkju eru haldnar reglulega og þá auglýstar sérstaklega.
Prestar innflytjenda og flóttafólks eru sr. Árni Þór Þórsson og sr. Toshiki Toma.
Æskulýðsprestar
Æskulýðsprestar eru vígðir þjónar sem að sérhæfa sig í barna og æskulýðsstarfi. Hlutverk þeirra er að stuðla að því að unga fólkið finni sig velkomið innan kirkjunnar. Auk þess legga þeir áherslu á að boða fagnaðarerindið á skiljanlegan og aðgengilegan hátt sem hentar hverjum aldurshópi.
Þeir tala máli unga fólksins á vettvangi kirkju og kristni og standa vörð um að málefni yngsta safnaðarfólkið gleymist ekki. Æskulýðsprestar gegna mikilvægu hlutverki þar sem þeir vinna að trúarlegri fræðslu, félagsstarfi og andlegri umönnun barna og unglinga. Þeir stuðla að því að skapa öruggt og uppbyggilegt umhverfi þar sem ungt fólk getur vaxið í trú, von og kærleika og fundið stuðning í daglegu lífi.
Barna og æskulýðsstarf er fjölbreytt og viðamikið innan Þjóðkirkjunnar og er það því mikil blessun að eiga að fjölbreyttan hóp af æskulýðsprestum með mismunandi styrkleika og hæfileika, en eru samhuga í hugsjón og markmiðum.
Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi. (1Tim. 4:12)