
Biskupar Íslands
Biskup Íslands er æðsti embættismaður Þjóðkirkjunnar og er Ísland eitt biskupsdæmi sem skiptist í tvö vígslubiskupsumdæmi.
Guðrún Karls Helgudóttir er biskup Íslands með aðsetur á Biskupsstofu í Reykjavík.
Gísli Gunnarsson er vígslubiskup á Hólum. Kristján Björnsson er vígslubiskup í Skálholti.
Biskup Íslands er Guðrún Karls Helgudóttir
Biskup er æðsti embættismaður þjóðkirkjunnar. Hún hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu.
Sr. Guðrún Karls Helgudóttir var kjörin biskup í maí 2024. Hún hóf störf á biskupsstofu þann 1. júlí 2024 og hlaut vígslu til biskups Íslands í Hallgrímskirkju þann 1. september.
Í lögum um Þjóðkirkjuna frá 2021 segir um biskup Íslands að hann skal fara með yfirstjórn Þjóðkirkjunnar, gæta að einingu hennar. Þá skal biskup hafa tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og þjónustu.
Biskup skal tryggja þjónustu orðs og sakramenta og gæta postullegrar trúar samkvæmt orði Guðs og játningu og kirkjuskipan evangelisk lúterskrar kirkju.
Ísland er eitt biskupsdæmi sem skiptist í tvö vígslubiskupsumdæmi. Þau skiptast svo í prófastsdæmi, sóknir og loks í prestaköll.
Starf biskups
Biskup hefur tilsjón með þjónustu og starfi safnaðanna, vígðra þjóna og starfsmanna kirkjunnar hvað varðar helgihald, fræðslu, kærleiksþjónustu og boðun trúarinnar. Enn fremur skal biskup veita forystu og almenna tilsjón með söfnuðum, sjálfboðaliðum, prestum, djáknum, stofnunum og starfsfólki kirkjunnar.
Biskup jafnframt er æðsti yfirmaður hinnar vígðu þjónustu og gætir þess að samþætta starfsemi hennar og kirkjulegra stjórnvalda.
Biskup vígir presta og djákna samkvæmt fyrirmælum Handbókar kirkjunnar og samþykktum. Skal hann þá sjá til þess að djáknar, prestar, prófastar og sóknir sinni skyldum sínum að veita kirkjulega þjónustu í umdæmum sínum. Vígslubréf eru gefin út sem staðfesting þess að vígsluþegi hafi þegið vígslu og lúti tilsjón biskups og tilmæli til safnaðar að veita vígðum þjóni sínum viðtöku sem réttilega kölluðum þjóni. Biskup setur prestum og djáknum erindisbréf og útnefnir prófasta og setur inn í embætti. Skal hann jafnframt tryggja handleiðslu, símenntun og endurmenntun presta samkvæmt starfsreglum þar að lútandi.
Biskup skal sjá til þess að prestar hafi sakramentin um hönd, og boði fagnaðarerindið með orðum og verkum og skal sjá til þess að guðsþjónusta, fræðsla og kærleiksþjónusta kirkjunnar standi sóknarbörnum til boða.
Biskup vígir einnig kirkjur og kapellur. Biskup getur veitt leyfi til notkunar óvígðra húsakynna til helgihalds kirkjunnar samkvæmt samþykktum um innri málefni kirkjunnar.
Komi deilumál upp varðandi prestsþjónustu, notkun kirkna og safnaðarheimila sker biskup úr og veitir undanþágur frá gildandi helgisiðum.
Dómkirkjan í Reykjavík er kirkja biskups Íslands en hefur þó afnot af kirkjum biskupsdæmisins til helgihalds og boðunar þegar hann þarf á að halda. Biskup vísiterar kirkjur, presta og söfnuði biskupsdæmisins og kynnir sér þar þjónustu kirkjunnar og starfsemi, stöðu hennar í samfélaginu, ásigkomulag kirkna og eigna kirkjunnar, eiga starfsmannasamtöl við vígða þjóna og kynna sér samskipti þeirra og safnaðar. Biskup nýtur þjónustu prófasts á vísitasíum.
Biskup skal jafnframt láta halda fullnægjandi skrá um ásigkomulag kirkna, innanstokksmuni og gripi, eignir hennar og hlunnindi.
Biskup situr kirkjuþing með málfrelsi og tillögurétt. Hann situr jafnframt fundi stjórnar Þjóðkirkjunnar og sinnir öðrum verkefnum biskups samkvæmt lögum, starfsreglum, samþykktum, hefð og venju Þjóðkirkjunnar, þar á meðal að vinna í samstarfi við framkvæmdastjóra Þjóðkirkjunnar fjárhagsáætlun fyrir vígða þjónustu ár hvert.
Biskup Íslands er vígður af forvera sínum eða þeim vígslubiskupi sem eldri er að vígslu. Áminningar og heit vígslunnar eru skuldbindandi fyrir líf og þjónustu biskups.
Vígslubiskupar Íslands
Ísland er eitt biskupsdæmi, en skiptist í tvö vígslubiskupsumdæmi.
Vígslubiskuparnir starfa í umboði biskups Íslands og eru biskupi Íslands til aðstoðar um kirkjuleg málefni og annast þau biskupsverk sem biskup felur þeim svo sem að vígja presta, djákna, kirkjur og kapellur.
Vígslubiskupar hafa tilsjón með kristnihaldi í umdæmum sínum, veita andlega leiðsögn og efla kirkjulíf. Það gera þeir fyrst og fremst þegar þeir vísitera prestaköll og söfnuði í umdæmum sínum. Vísitasíur vígslubiskupa beinast einkum að hinni vígðu þjónustu, helgihaldi, boðun, sálgæslu og safnaðarstarfi.
Vígslubiskupar annast sáttaumleitanir í umdæmi sínu meðal starfsfólks kirkjunnar. Vígslubiskupar styðja við starfsemi biskupsstólanna og bera ábyrgð á helgihaldi dómkirkna sinna í samstarfi við viðkomandi prest.
Vígslubiskuparnir eru einnig staðgenglar biskups Íslands í forföllum og leyfum hans.
Gísli Gunnarsson er vígslubiskup á Hólum
Coming soon...
Kristján Björnsson er vígslubiskup í Skálholti
coming soon...
Biskupskjör
Kjörstjórn þjóðkirkjunnar auglýsir hvenær biskupskjör fer fram.
Kjörgengur til biskups Íslands er hver guðfræðikandídat sem fullnægir skilyrðum til þess að gegna prestsembætti í íslensku þjóðkirkjunni.
Fyrst fara fram tilnefningar. Rétt til tilnefningar til biskups Íslands hafa biskup íslands og vígslubiskupar, þjónandi prestar og djáknar í söfnuðum Þjóðkirkjunnar á Íslandi og erlendis sem og vígðir þjónar kirkjunnar sem lúta tilsjónar biskups Íslands en starfa á vegum stofnunar og/eða félagasamtaka hér á landi. Prestar og djáknar í allt að tveggja ára tímabundnu leyfi hafa einnig tilnefningarrétt. Djákni skal vera ráðinn til a.m.k. eins árs eða ótímabundið til að hafa tilnefningarrétt. Prestur sem settur er til þjónustu tímabundið nýtur ekki kosningarréttar nema í þeim tilfellum þar sem ekki er skipaður prestur fyrir. Vígðir starfsmenn Biskupsstofu sem eru í föstu starfi þar hafa einnig tilnefningarrétt.
Eftir að tilnefningar hafa farið fram er kosið á milli þriggja efstu. Kosningarétt við kjör biskups hafa allir þeir sem hafa tilnefningarrétt auk aðal- og varamanna í sóknarnefndum. Þá skulu allt að sjö kjörfulltrúar úr hverju prestakalli valdir af sóknarnefnd eða sóknarnefndum og hafa þeir kosningarétt í biskupskjöri. Kirkjuþingsfulltrúar sem ekki eru vígðir þjóðar og sitja ekki í sóknarnefnd kosningarétt.
Ef einn þeirra þriggja sem tilnefndir voru í biskupskjöri hlýtur ekki meirihlutakjör í fyrstu umferð skal önnur umferð fara fram þar sem kosið er á milli tveggja efstu úr fyrri umferð.