
ÚTFÖR
Þegar ástvinur deyr vakna margar spurningar. Prestar og djáknar geta veitt þér leiðsögn í þeim erfiðu aðstæðum.
Hver sem er má jarðsyngja og þú hefur mikið um það að segja hvernig útförin fer fram. Þú getur leitað til kirkjunnar með útför, jafnvel þótt þú sért ekki í Þjóðkirkjunni.
Við getum einnig aðstoðað með spurningar um kostnað við útför, möguleika á styrkjum, val á grafarstæði, líkbrennslu og fleira. Hafðu samband og við leiðbeinum þér skref fyrir skref.
Kirkjuleg útför
Ef þú ákveður að leita til kirkjunnar með útförina, þá er hún skipulögð af presti í samvinnu við aðstandendur, organista og útfararstofu.
Ef þig vantar aðstoð varðandi útför þá getur þú alltaf leitað til presta þjóðkirkjunnar. Í þjóðkirkjunni eru það prestar sem annast útfararathafnir. Öll geta leitað til kirkjunnar hvort sem þau eru meðlimir í þjóðkirkjunni eða ekki. Þjóðkirkjan þjónar öllum óháð trú eða trúfélagsaðild.
Hér getur þú fundið þína kirkju.
Vefurinn utforikirkju.is veitir greinargóðar upplýsingar um útfarir.
Samtal um undirbúning
Gott er að ræða við prest um undirbúning fyrir útförina og segja honum/henni frá hinum látna og fara yfir helstu æviatriði.
Þær upplýsingar notar presturinn við samningu minningarorða. Prestar og organistar geta hjálpað við val á sálmum og tónlist í útförinni. Þá er líka rætt um hver mun bera kistuna og önnur praktíst atriði.
Mikilvægt er að prestur fái í þessu samtali vottorð um að andlátið hafi verið tilkynnt til sýslumanns.
Kistulagning
Áður en útför er haldin fer fram kistulagning.
Sums staðar fer kistulagningin fram nokkrum dögum fyrir útfararathöfnina, en oftast er hún sama dag.
Kistulagningarathöfnin er fyrir þau sem aðstandendur bjóða.
Það er oftast nánasta skyldfólk og einstaka vinir.
Við kistulagningarathöfnina er kistan opin og fólki gefst kostur á að kveðja hinn látna/hina látnu á sinn persónulega hátt.
Við athöfnina er lesið úr Biblíunni, beðin bæn og farið með blessun.
Þá gengur fólk að kistunni og signir yfir áður en kistunni er lokað.
Mikilvægt er að börnum sé leyft að vera viðstödd kistulagningu svo þau sjái að dauðinn er ekki eitthvað til að óttast.
Hvað er útför í kirkju?
Útför í kirkju er athöfn þar sem fólk kemur saman, til að klveðja hinn látna.
Í athöfninni eru lesið úr Biblíunni og bænir eru beðnar fyrir þeim sem syrgja.
Sálmar eða aðrir söngvar eru sungnir annað hvort af einsöngvara, kór eða þeim sem koma til athafnarinnar.
Presturinn fer með minningarorð um hinn látna/hina látnu og boðar boðskap um upprisu, von og huggun.
Í lok útfararinnar fer fram moldun.
Þá setur presturinn örlitla mold yfir kistulokið þrisvar sinnum og fer með orðin:
„Af jörðu ertu komin/n, að jörðu skaltu aftur verða, af jörðu skaltu aftur upp rísa.“
Í bæjum og borgum er algengast að moldun fari fram inni í kirkjunni, en til sveita er oftast moldað í kirkjugarðinum.
Sálgæsla og missir
Aðstæður við dauðsföll eru mjög mismunandi.
Flestir deyja í hárri elli.
Önnur deyja eftir langt sjúkdómsferli og enn önnur deyja skyndilega eða af slysförum.
Prestur veitir fólki stuðning og sálgæslu við allar aðstæður.
Hann/hún ræðir við aðstandendur, gefur þeim tækifæri til að tjá tilfinningar sínar um missinn og hinn látna ástvin.
Prestar og djáknar veita sálgæslu þótt langt sé liðið frá útför.
Get ég fengið að ráða því hvernig útförin fer fram?
Í kirkjunni er ákveðið form fyrir útfararathöfn.
Innan þess forms hafa aðstandendur mikið frjálsræði við að móta athöfnina.
Við útförina eru beðnar bænir, lesið úr Biblíunni, flutt eru minningarorð og flutt tónlist.
Sálmar við útför tjá huggun og von um upprisu og eilíft líf.
Í bænum finnum við huggun í sorginni, söknuðinum og voninni um að ástvinur hvíli í faðmi Guðs.
Í minningarorðunum er æviskeið hins látna rakið.
Þá er von upprisunnar boðuð og fyrirheit Guðs um að vera með okkur öllum í lífi og dauða.
Greftrun kistu eða duftkers
Ef kista er jarðsett er hún látin síga niður í gröfina í kirkjugarðinum og aðstandendur signa yfir.
Sé um bálför að ræða er duftkerið jarðsett í sérstakan duftreit eða í grafir með leyfi rétthafa leiðis.
Einnig er hægt að sækja um leyfi til sýslumanns um dreifingu ösku yfir sjó eða örævi.
Við jarðsetningu eða dreifingu ösku fer yfirleitt fram athöfn sem prestur/djákni leiðir.
Kostnaður og styrkir vegna útfarar
Á heimasíðum fyrirtækja sem veita útfaraþjónustu er að finna verðskrá og verðdæmi um kostnað vegna útfarar, t.d. kista, líkklæði, prentun sálmaskrár, blóm og kransar, laun söngvara o.fl.
Þóknun fyrir organleik við útfarir og kistulagningu eru samkvæmt samningi þess efni.
Auk þess er greitt vegna prestsþjónustu við kistulagningu og útför og ef um er að ræða athöfn við jarðsetningu duftkers eða kistu.
Þær greiðslur eru samkvæmt gjaldskrá um aukaverk presta.
Sálgæsla og viðtöl hjá prestum og starfsfólki kirkjunnar eru öllum gjaldfrjáls.
Kostnaður vegna útfarar er töluverður og það kemur fyrir að dánarbú hins látna einstaklings eigi ekki fyrir útförinni.
Þá er hægt að leita eftir fjárhagslegum stuðningi frá sveitarfélagi og sjúkra og styrktarsjóðir stéttarfélaga veita styrki vegna útfararkostnaðar að vissum skilyrðum uppfylltum.
Val á legstað
Þjóðkirkjan á Íslandi ber ábyrgð á mörgu sem tengist útförum. Ef þú vilt halda kirkjulega útför skaltu hafa samband við sóknina þína.
Í flestum landshlutum eru það einnig sóknir Þjóðkirkjunnar sem sjá um greftrunarstaði og bera ábyrgð á flutningi hins látna. Sóknin getur einnig aðstoðað við að útvega stað fyrir útfararathöfnina og minningarstundina, þar sem hún ber ábyrgð á útfaraþjónustu á flestum stöðum.
Þetta gildir óháð því hvort hinn látni hafi verið trúaður eða ekki og óháð því hvaða trúarbrögðum hann kann að hafa aðhyllst.