SKÍRN
Viltu láta skíra barnið þitt, eða ertu að íhuga skírn fyrir sjálfan þig, jafnvel sem unglingur eða fullorðinn?
Skírnin er tákn um kærleika og vernd Jesú Krists, sem tekur þig að sér og leiðir þig í lífinu. Hafðu samband við kirkjuna ef þú vilt vita meira eða skipuleggja skírn. Við erum hér til að hjálpa þér á þessum mikilvægu tímamótum.
Hvað er skírn?
Í skírninni sýnir Guð þér umhyggju á skýran og persónulegan hátt.
Presturinn sem skírir þig eða barnið þitt biður Guð um að vera nálægt þér í öllu lífinu. Kirkjan býður öllum skírn án skilyrða. Börn, unglingar og fullorðið fólk er boðið velkomið til skírnar.
Ef um ungbarnaskírn er að ræða þá býður kirkjan síðar á ævinni til fermingar sem er staðfesting barnsins á skírninni.
Hver má skíra?
Allir prestar þjóðkirkjunnar bjóða fólki að skíra börn, unglinga eða fullorðið fólk eða einfaldlega að koma til samtals um skírnina.
Þú getur leitað til þíns prests eða prests í nágrannasöfnuði.
Í skírninni fer presturinn með blessun og þau sem eru viðstödd biðja fyrir barninu og framtíð þess. Skírnin er hin sama alveg sama á hvaða aldri hún er framkvæmd.
Presturinn biður fyrir og eys vatni yfir höfuð skírnarþegans og merkir með tákni krossins á enni og á brjóst.
Hvert er upphaf skírnarinnar?
Þegar Jesús hafði verið sýnilegur fylgjendum sínum í 40 daga eftir upprisuna fór hann með þeim upp á hátt fjall og fól þeim að koma þeim kærleiksboðskap sem hann hafði boðað þeim áfram til næstu kynslóða og sagði:
“Allt vald er mér gefið á himni og jörðu.
Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá til nafns föður, sonar og hins heilaga anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið yður.
Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.”
(Matt. 28, 18-20).
Fólkið sem hlustaði á þessi orð, sem við köllum í dag skírnarskipunina, tók þetta hlutverk alvarlega og boðaði næstu kynslóð boðskapinn um kærleikann.
Þannig hefur boðskapur Jesú borist frá einni kynslóð til annarrar. Með því að fara með þessi orð við skírnina er skírnarþeginn, foreldrar skírnarbarns og skírnarvottar minnt á þá ábyrgð sem þau taka að sér við skírnina. Sú ábyrgð er að tileinka sér þann boðskap sem Jesús kenndi lærisveinum sínum um kærleikann. Skírnarvottar kallast einnig guðfeðgin og eru þau tvö til fimm. Við ungbarnaskírn játa foreldrar og guðfeðgin trúna fyrir hönd barnsins og leitast við að fræða það sem mikilvægt er í kristnum boðskap.
Getur þú fengið að vera með í að móta skírnarathöfnina?
Skírnin fer þannig fram að prestur leiðir stundina, en gjarnan koma fjölskyldumeðlimir að henni á einn eða annan hátt.
Fjölskyldur móta stundina í samráði við prestinn og ræða um hvort skírnin fari fram við guðsþjónustu, í sérstakri athöfn í kirkju eða í heimahúsi.
Einnig ræður fjölskyldan hvort leikin er tónlist eða sálmar sungnir.
Skírnin er gömul hefð og má rekja þá hefð allt til hinna fyrstu kristnu.
Í henni felst samfélag þeirra sem bera umhyggju fyrir barninu og er gleðistund í fjölskyldunni, en hefur einnig mjög djúpt trúarlegt gildi.
Skírn fermingarbarna
Ef þú varst ekki skírð/ur/t sem ungbarn, en vilt fermast þarf að skíra þig áður en þú fermist því fermingin er staðfesting þín á skírninni.
Þá færð þú að vera með við að undirbúa skírnina og segja hvernig þú vilt hafa hana.
Þú getur líka fengið að velja skírnarvottana.
Skírnarvottarnir geta haft það trúnaðarhlutverk að ræða við þig um trúna og lífið ef þú vilt.
Skírnarvottur verður að vera skírður einstaklingur.
Fullorðinsskírn
Ef þú varst ekki skírð/ur/t sem barn eða unglingur getur þú þegið fullorðinsskírn. Kirkjan býður öll þau sem vilja velkomin til þess að láta skíra sig, en fyrst er æskilegt að þú lærir um hvað kristinn boðskapur felur í sér.
Trú fjallar bæði um fræðslu og reynslu.
Kristin trú verður hluti af lífi okkar og dýpkar með reynslunni.
Við sjáum lífið, samfélagið og heiminn með augum trúarinnar.
Skírnin er hin sama alveg sama á hvaða aldri hún er framkvæmd.
Presturinn biður fyrir og eys vatni yfir höfuð skírnarþegans og merkir með tákni krossins á enni og á brjóst.
Skemmri skírn
Ef óskírt barn er hættulega sjúkt og ekki hægt að ná til prests má hver skírður einstaklingur framkvæma skemmri skírn. Skírnarvatn skal vera hreint og helst ylvogt og gæta skal þess að einhver geti borið vitni um að skírnin hafi farið fram.
Tilkynna skal presti um hana og ber honum að staðfesta hana í kirkju. Nánari upplýsingar um skemmri skírn má finna á blaðsíðu 1104 í Sálmabók.