Mynd sem tengist textanum

HJÓNAVÍGSLA

Ertu í giftingarhugleiðingum? Þegar tveir einstaklingar taka ákvörðun um að ganga saman í gegnum lífið vakna sjálfsagt spurningar um giftingu og sambúð. Áður en ákvörðun er tekin er mikilvægt að kynna sér vel hver réttarstaða ykkar er í óvígðri sambúð. Ef þið hafið ákveðið að gifta ykkur, þá eru tveir valkostir í boði: borgaraleg athöfn eða hjónavígsla í kirkju. Kirkjan býður hlýlegt og táknrænt umhverfi þar sem þið fáið að hefja sameiginlegt líf í nærveru Guðs og ástvina. Athafnir í kirkjum geta verið stórar eða smáar, fjölmennar eða litlar og persónulegar.

Hvernig sem þú vilt hafa þína athöfn, getum við aðstoðað við undirbúninginn.

Hjónavígslan er....


þegar tveir einstaklingar lýsa því yfir í áheyrn votta að þau vilji vera hjón og síðan handsala þau þennan sáttmála. Efnislega er enginn munur á borgaralegu brúðkaupi eða kirkjulegu.

Ef þið viljið gifta ykkur í kirkju skuluð þið lesa áfram.

Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar, heita hvort öðru að ganga saman æviveginn.

Það sem greinir kirkjulega hjónavígslu frá borgaralegri er að í kirkjunni er beðið fyrir brúðhjónunum og þau þiggja blessun Guðs.

Kirkjuleg brúðkaup fara oftast fram í kirkju.

Þó getur prestur framkvæmt hjónavígslu í heimahúsi eða jafnvel utandyra.

Tveir vottar þurfa að vera viðstaddir eða svaramenn, en oftast eru það fleiri, fjölskylda og vinir.

Áður en hjónavígslan fer fram þurfið þið að fylla út könnunarvottorð sem finna má á https://island.is/um-hjonaband

Þegar þið hafið fyllt það út afhendið þið prestinum það.

Hvaða kirkju eigum við velja og hvaða prest?


Viljið þið gifta ykkur í kirkjunni þar sem þið búið eða fermingarkirkju annars hvors ykkar eða í einhverri allt annarri kirkju?

Allar kirkjur bjóða ykkur velkomin.

Ykkar er valið.

Allir prestar þjóðkirkjunnar taka að sér hjónavígslur.

Áður en vígslan fer fram eigið þið viðtal við prestinn um athöfnina.

Þið ræðið um tónlistina sem á að flytja og um það hvernig athöfnin fer fram.

Í sálmabókinni er að finna nokkra brúðkaupssálma, en oft eru sungin lög um ástina og lífið.

Um það hafið þið mjög mikið að segja, en gott er að fá ráð frá prestinum.

Samtalið fer fram annað hvort í kirkjunni eða heima hjá ykkur.

Oftast fer líka fram æfing í kirkjunni.

Skoða Kirkjur (Hlekkur, eftir að útbúa texta)

Hvernig fer athöfnin fram?


Hjónavígsluathafnir eru mjög mismunandi, enda hafið þið mikið um það að segja hvernig þið viljið hafa athöfnina.

Samt sem áður eru nokkrir fastir punktar.

Það er beðið fyrir ykkur og í lokin þiggið þið blessun Guðs.

Það er skylt að spyrja brúðhjónin hvort þau vilji játast hvort öðru.

Þegar bæði hafa svarað takist þið í hendur og presturinn lýsir ykkur hjón.