Mynd sem tengist textanum
Mynd sem tengist textanum

FERMING

Kirkjan býður öllum unglingum á 14. ári til fermingarstarfa, óháð trúarafstöðu. Á þessum tímamótum fá þátttakendur tækifæri til að spyrja mikilvægra spurninga eins og: „Hver er ég?“ „Hvernig vil ég lifa?“ og „Get ég verið eins og ég er?“


Í fermingarstarfinu er fjallað um Guð, lífið og það sem skiptir þig máli, auk þess sem þú kynnist sjálfum/sjálfri/sjálfu þér betur og færð stuðning til að finna þinn veg í lífinu.

Hvað þýðir orðið ferming?


Orðið ferming þýðir staðfesting. Í kirkjulegu samhengi þýðir það staðfesting á skírninni. Það þýðir að þú ert samþykk/ur/t því að hlýða kærleiksboðskap Jesú. En þú þarft ekki að vera skírð/ur/t til að taka þátt í fermingarstörfunum. Mörg fermingarbörn eru skírð áður en þau fermast. Í fermingunni staðfestir þú að þú vilt fylgja kærleiksboðskap Jesú og leyfa honum að hafa áhrif á líf þitt. Eftir fræðslu um þennan boðskap fer fram ferming í kirkju. Þar svarar þú spurningu prestsins, sem er á þessa leið: Vilt þú leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins?

Þegar þú svarar þeirri spurningu játandi þýðir það að þú játar að þér líki kærleiksboðskapur Jesú og vilt reyna að fylgja honum. Þú játar því líka að þú viljir leyfa Jesú Kristi að fylgja þér. Síðan þiggur þú fyrirbæn og blessun.

Hvernig fara fermingarstörfin fram?


Það er mjög mismunandi hvernig fermingarstörfin fara fram. Í sumum kirkjum hefjast fermingarstörfin rétt eftir miðjan ágúst með sumarnámskeiði, sem stærstur hluti fermingarbarnanna tekur þátt í. Síðan hefst vetrarnámskeið í september og er vikulega fyrir þau sem misstu af sumarnámskeiði, eða hluta þess.

Fastur liður hjá mörgum söfnuðum er að fara í Vatnaskóg, Löngumýri eða einhvern annan fallegan stað einhvern tímann yfir veturinn. Í öðrum kirkjum eru vikulegar samverur allan veturinn þar sem tekið er á ýmsum málum. Talað er um lífið og tilveruna og spurningar eru ræddar sem brenna á þátttakendum.

Alls staðar er fjallað um Biblíuna, farið er yfir Faðir vorið, trúarjátninguna og bænina, altarisgönguna og skírnina. Oft fá fermingarbörnin heimsókn frá Hjálparstarfi kirkjunnar og víðast hvar taka þau þátt í söfnun Hjálparstarfsins. Þátttaka í helgihaldi yfir veturinn er hluti af fermingarstarfinu.

Fermingardagurinn er eftirminnilegur



Fermingardagurinn er hjá mörgum eftirminnilegasti dagur ævinnar.

Fermingarathöfnin fer fram í kirkju, en áður hefur presturinn æfingu svo allt fari vel fram.

Í athöfninni svarar þú spurningu prestsins, sem er á þessa leið:

Vilt þú leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins?

Þegar þú svarar þeirri spurningu játandi þýðir það að þú játar að þér líki kærleiksboðskapur Jesú og vilt reyna að fylgja honum. Um leið játar þú því að þú viljir leyfa Jesú að taka þátt í þínu lífi.

Síðan þiggur þú fyrirbæn og blessun.

Að lokum er altarisganga.

Í altarisgöngunni þiggur þú ásamt fjölskyldu þinni brauð og vín þar sem minnst er síðustu kvöldmáltíðar Jesú með lærisveinum sínum.

Við fermingarathafnir er oftast notað óáfengt vín.

Í flestum kirkjum fá börnin að ganga til altaris áður en þau eru fermd, en sums staðar eru þau að taka þátt í altarisgöngunni í fyrsta skipti í fermingarathöfninni.

Langflest halda fermingarveislur með fjölskyldu og vinum, sem öllum eru eftirminnilegar.